Tap var á rekstri Epli verslunar ehf. á árinu 2013 sem nemur 1.809.421 krónu en árið áður skilaði félagið rúmum átta milljóna króna hagnaði. Félagið rak verslunina Epli.is í Smáralind en í upphafi árs árið 2013 yfirtók Skakkiturn ehf. rekstur verslunarinnar sem sérhæfir sig í sölu á Apple varningi. Skakkiturn er dreifingaraðili Apple á Íslandi, veitir viðhalds- og viðgerðarþjónustu fyrir Apple búnað en fyrirtækið rekur einnig verslun á Laugavegi undir merkjum Epli.is.

Hagnaður Skakkaturns ehf. á sama tímabili nam rúmum 158 milljónum króna. Eftir yfirfærsluna á Apple-búðinni nema eignir Epli verslunar ehf. rúmum 16 milljónum og eigið fé var í árslok tæpar 15,5 milljónir króna. Félagið Báshylur ehf. á allt hlutafé í báðum félögum en framkvæmdastjóri þeirra er Bjarni Þorvarður Ákason.