Eskja hf. var rekin með 260 milljón króna hagnaði á fyrri helmingi ársins 2005. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 592 milljónir, eða 29,5% af rekstrartekjum. Rekstrartekjur félagsins námu 2.000 milljónum og rekstrargjöld 1.408 milljónum. Verð á erlendum mörkuðum sem og sterk staða krónunnar hefur leitt til tapreksturs í rækjuiðnaði. Horfur þar eru því ekki góðar. Hagnaður fyrir skatta er því 317 milljónir, reiknaðir skattar 57 milljónir og hagnaður tímabilsins 260 milljónir. Á sama tímabili í fyrra var framlegð félagsins 689 milljónir og hagnaður 228 milljónir.


Afskriftir tímabilsins voru 155 milljónir. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1,7 milljónir. Niðurfærsla vegna hlutabréfaeignar félagsins í Íshafi ehf er 120 milljónir en rækjuveiði við strendur Íslands hefur dregist mjög saman.

Félagið hefur hætt að afskrifa aflaheimildir í samræmi við IAS 38 og hefur þess í stað tekið upp virðisrýrnunarpróf í samræmi við IAS 36. Samkvæmt IAS 38 (Óefnislegar eignir) var línulegum afskriftum keyptra aflaheimilda hætt þar sem um ótímabundin réttindi er að ræða sem rýrna hvorki með tíma né við notkun. Jafnframt var samanburðartölum breytt til samræmis. Við þessa breytingu hækkar mat aflaheimilda þann 31. desember 2004 um 198 milljónir, 162 milljónir koma til hækkunr á eiginfé en 36 milljónir til hækkunar á tekjuskattsskuldbindingu félagsins. Eigiðfé um ármót hækkar því úr 1.530 milljónum í 1.692 milljónir.

Heildareignir félagsins í lok júní voru 8.956 milljónir. Skuldir og skuldbindingar námu 6.980 milljónum, eigið fé í lok tímabilsins er 1.975 milljónir. Eiginfjárhlutfallið er því 22%.

Rekstur félagsins út árið ræðst mjög af hvernig kolmunnaveiði og ?vinnslu miðar á síðari hluta árs, en veiðar júlí og ágúst eru undir áætlunum félagsins. Afurðaverð á mörkuðum ásamt gengi íslensku krónunnar munu einnig hafa mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Mjölverð hefur farið hækkandi á síðustu mánuðum.