Nýverið var gerð úttekt á Fljótsdalsstöð á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Fljótsdalsstöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Fljótsdalsstöð þær bestu sem fyrirfinnast að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Fljótsdalsstöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 11 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í fjórum flokkum uppfyllir Fljótsdalsstöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum. Tveir flokkar áttu ekki við í þessari úttekt.