„Tækniþróun hefur farið fram úr kerfinu. Kerfið í heild verður að aðlagast nýjum tímum og við þurfum að enduskoða námsefni, menntun og endurmenntun kennara og fjárfesta í tæknibúnaði skólanna,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata frá skólanum í dag. Hátt í 500 kandídatar brautskráðust frá skólanum í dag.

Kristín lagði í ræðu sinni áherslu á þær breytingar sem fylgja þurfa stöðugum tækniframförum. Verkefnið sagði hún nokkuð sem samfélagið og allir skólar í landinu þyrftu að koma að.

„Við sem metnaðarfull þjóð eurm kröfuhörð og viljum eiga menntakerfi og heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Við sættum okkur ekki við minna þrátt fyrir fámennið. Um þetta virðumst við öll sammála óháð stjórnmálaskoðunum, búsetu, aldri, kyni og menntun,“ sagði Kristín. Hún bætti við nýtt háskólasjúkrahús væri mikilvægur þáttur í þessu. „Við verðum að tryggja að nýtt háskólasjúkrahús rísi sem gerir okkur kleift að mæta nýjum tímum og auknum kröfum í menntun og heilbrigðisþjónustu,“ sagði Kristín.

Hér má lesa ræðu Kristínar Ingólfsdóttur í heild.