Renewable Energy Resources hefur eignast 22,1% í Romag og er þar með stærsti hluthafi félagsins segir í frétt í Kauphöllina. Renewable Energy Resources er í eigu Atorku Group og sérhæfir sig í fjárfestingum í endurnýjanlegri orku. Aðrar eignir Renewable Energy Resources eru Jarðboranir og 16% eignarhlutur í Enex sem starfar aðallega í þróunarverkefnum á sviði jarðvarma.

Renewable Energy Resources kaupir alla hluti Atorku í Romag ásamt því að kaupa 3.200.000 viðbótarhluti. Alls á félagið því 10.083.299 hluti í Romag sem er 22,1%. Kaupin eru fjármögnuð með handbæru fé og lánsfé. Kaupverð hlutarins er um 2,4 milljarðar króna.

Romag er leiðandi framleiðandi á heimsvísu á sérhæfðum glerlausnum sem nýta birtu til rafmagnsframleiðslu (e. photovoltaic glass) en mikill vöxtur er á þeim markaði. Velta Romag á þessum lausnum óx um 300% á síðasta ári. Spá greiningadeilda gerir ráð fyrir 23 milljóna punda veltu eða sem nemur þremur milljörðum króna.


?Með kaupunum er Renewable Energy Resources orðinn leiðandi fjárfestir í Romag, og mun styðja félagið til frekari vaxtar. Þessi fjárfesting er fyrsta skref Renewable Energy Resources í fjárfestingum í sólarorku. Markaðurinn í endurnýjanlegri orku hefur vaxið mikið á síðustu árum og sjáum við frekari vöxt framundan í ljósi aukinnar vitundar og áherslna um notkun á endurnýjanlegri orku," segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku.