Peningastefnunefnd Seðlabankans taldi á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum – hvar ákveðið var að halda stýrivöxtum óbreyttum – rétt að staldra við og sjá hver áhrifin yrðu af vaxtalækkunum ársins. Að auki ynni slaki ríkisfjármálanna með peningastefnunni. Þetta kemur fram í nýbirtri fundargerð nefndarinnar .

Ákvörðun nefndarinnar um óbreytta vexti var samhljóða. Slaki þjóðarbúsins er í fundargerðinni sagður lítill samkvæmt grunnspá bankans, en 0,2% hagvöxtur mældist á þriðja ársfjórðungi.

Í meginatriðum hefði efnahagsþróunin það sem af er ári verið í samræmi við nóvemberspá bankans. Hægt hefði á fækkun erlendra ferðamanna og væri þróunin undanfarið hagstæðari en búist hefði verið við.

Vaxtakjör heimila hefðu lækkað í kjölfar stýrivaxtalækkana ársins, og útlánavöxtur til heimila enn nokkur. Munur á vaxtakjörum banka til fyrirtækja og stýrivaxta hefði hinsvegar aukist nýverið, og áfram hægði á hreinum nýjum útlánum til þeirra.

Hægari útlánavöxtur væri þó viðbúinn eftir mikinn vöxt síðustu ár, og taldi nefndin líklegt að vænt arðsemi verkefna fyrirtækja færi minnkandi sökum fallandi eftirspurnar. „Auk þess hefðu ýmsir þættir í rekstri fjármálastofnana áhrif á aðgengi að lánsfé þ.á m. endurmat þeirra á verðlagningu og áhættu útlána í kjölfar breytinga í rekstrarumhverfi þeirra að undanförnu. Nefndin var sammála um að rétt væri að fylgjast með þessari þróun á næstunni og þeim áhrifum sem hún gæti haft á mótun peningastefnunnar.“