Þrátt fyrir að aðeins 14,6% aðspurðra í nýrri könnun MMR segist bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, getur hann þó huggað sig við það að 50,6% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins segjast bera mikið traust til formannsins.

Þetta er þó töluvert minna traust en aðrir leiðtogar stjórnmálaflokka njóta meðal eigin flokksmanna. Þannig nýtur Katrín Jakobsdóttir trausts 86,1% stuðningsmanna Vinstri Grænna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur trausts 83,8% stuðningsmanna Framsóknarflokksins og Guðmundur Steingrímsson nýtur trausts 70,4% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar.

Samanburðurinn við Hönnu Birnu er Bjarna enn óþægilegur, því um 84,5% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins segjast bera mikið traust til hennar, sem er tölvert hærra hlutfall en í tilviki Bjarna. Þá er áhugavert að sjá að traust óákveðinna til Hönnu Birnu er um 43,0%, en Bjarni nýtur trausts 3,7% fólks í þessum hópi.

Katrín í öfundsverðri stöðu

Þeir sem vilja sjá tengsl á milli Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar munu geta gert sér mat úr því að um 42,5% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar bera mikið traust til Árna Páls Árnasonar og 48,3% stuðningsmanna Samfylkingarinnar bera mikið traust til Guðmunds Steingrímssonar. Þá er það áhugvert að aðeins 18,1% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins segjast bera mikið traust til Árna Páls og aðeins 4,5% þeirra treysta Guðmundi. Hvort þetta segi eitthvað til um mögulegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins við þessa tvo flokka er ómögulegt að segja.

Katrín Jakobsdóttir er einnig í öfundsverðri stöðu, því samkvæmt könnuninni nýtur hún trausts 54,4% óákveðinna, 79,5% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, 67,0% stuðningsmanna Bjartrar framtíðar, 26,6% stuðningsmanna Framsóknarflokksins og 27,1% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.