Rey Hotel ehf., hefur verið dæmt til að greiða nánast fullt uppsett verð, eða tæplega 7 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá október 2017 til verkfræðistofunnar Ferils ehf., vegna vinnu við hönnun vegna framkvæmda á Hlíðarendasvæðinu. Þá þarf félagið að greiða milljón í málskostnað.

Kvað Héraðsdómur Reykjavíkur verkfræðistofunni í vil í máli þess gegn hótelfyrirtækinu, en stjórnarformaður þess er Þröstur Sigurðsson hjá Capacent samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins.

Samband aðila hófst á vormánuðum 2017 en Ferli var falið að gera kostnaðaráætlun, hanna burðarþol og sjá um hönnun á lögnum. Í september það ár sendi stofan félaginu reikning vegna vinnunnar eða samtals 347 vinnustundir. Tímagjaldið var 16.800 krónur en sex stundir voru vegna verkfræðinema. Tímagjald hans var 12.800 krónur. Með reikningnum fylgdi tímaskýrsla vegna verksins.

Í málinu var óumdeilt að ekki hafði verið samið fyrir fram um tímagjald vegna verksins og greindi þá um hvað eðlilegt gjald fyrir vinnuna væri. Vildi Rey hotel ekki greiða uppsett verð sagðist það hafa boðið 14 þúsund krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir hverja unna vinnustund og aldrei samþykkt hærra verð en það. Rey hafnaði að greiða reikninginn og höfðaði stofan málið til innheimtu hans.

Undir meðferð málsins var dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á það hvort fjöldi vinnustunda við verkið teldist eðlilegur, hvert eðlilegt tímagjald væri og hvort hönnun á lagnakerfi hefði verið í samræmi við kröfur sem gera skal til þeirra. Skemmst er frá því að segja að matmaðurinn taldi allt eðlilegt og nothæft nema hvað tímaskráningu vegna endurvinnu við lagnir varðaði. Taldi hann að ekki hefði borið að reikningsfæra 22 stundir við þá vinnu. Því vildi Rey ekki una og fór fram á yfirmat en niðurstaða þess var í grundvallaratriðum sú sama.

Fyrir dómi krafðist Rey hótel sýknu og taldil fjölda vinnustunda ekki vera í samræmi við verkið sem unnið var, sem og því hefði verið ábótavant og að Efla sem tók síðar við verkinu hafi þurft að endurhanna lagnakerfið sem Ferli hefði hannað.

Seinna sagði lögmaður félagsins að ekki hefði verið ætlunin að Feril fengi yfir höfuð greitt fyrir þessa vinnu heldur hafi verkfræðistofan unnið fyrir félagið á eigin áhættu með það að markmiði að fá frekari verkefni í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir. Síðustu málsástæðunni var hafnað því hún hafi komið of seint fram.

Í máli sínu lagði dómurinn, sem var fjölskipaður, niðurstöðu matsmanna til grundvallar. Dómsorðið hljóðaði upp á rúmar 6,9 milljónir króna en upphafleg krafa var 7,5 milljónir króna. Þá taldi dómurinn muninn á 16.800 króna tímagjaldi og 14.000 króna tímagjaldi svo óverulegan að ekki væri hægt að telja reikningana ósanngjarna. Að endingu var því hafnað að málatilbúnaður Ferils hefði verið svo óskýr að það hefði verið basl fyrir Rey að taka til varna.