Hagnaður bresku pöbbakeðjunnar JD Wetherspoon á síðasta reikningsári, sem lauk 27. júlí, var 55 milljónir punda. Sala á tímabilinu jókst um 2,1% en hagnaður dróst þó saman um 11%, einkum vegna laga um reykingabann og vegna minnkandi einkaneyslu.

Mestu munar þar um að sala áfengis á börum félagsins minnkaði um 4,3% milli ára.

Reykingabannið tók gildi 1. júlí 2007 í Bretlandi og hefur haft slæm áhrif á áfengissölu kráreigenda. Það sama gildir um JD Wetherspoon, en sala á mat vegur nú þyngra í rekstri félagsins en áður.

Í tilkynningu frá JD Wetherspoon segir að skattahækkanir hafi einnig komið niður á félaginu, sem og hærra orkuverð en áður.