Reykingafólk á Íslandi virðist vera farið að skipta tilbúnum sígarettum út fyrir ódýrari valkost í sparnaðarskyni. Á þessu er vakin athygli í tilkynningu um greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Magn keypts reyktóbaks hefur samkvæmt tilkynningunni aukist um 15,4% á tímabilinu miðað við sama tíma í fyrra.

Slíkt tóbak er ódýrara og er notað til að vefja eigin sígarettur. Á sama tíma hefur sala á tilbúnum sígarettum dregist saman um hátt í 5%. Neytendur neftóbaks virðast þó ekki eins sparsamir en magn selds neftóbaks hefur aðeins dregist saman um 1,7% á milli ára þrátt fyrir 75% hækkun neftóbaksgjalds um síðustu áramót.