Vel hefur þokast í viðræðum við kröfuhafa Reykjanesbæjar og bærinn ætlar ekki að leita eftir því að skipuð verði fjárhagsstjórn yfir bænum.

Greint var frá því í gær að Reykjanesbær hefði sett kröfuhöfum afarkosti og að ef þeir myndu ekki fallast á niðurfærslu skulda þá myndi bærinn óska eftir því að skipuð yrði fjárhagsstjórn yfir bænum. Sáttartillaga frá bænum fól í sér 6,8 milljarða afskrift skulda, en heildarskuldir bæjarins nema um 40 milljörðum.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir í samtali við viðskiptablaðið að niðurstaðan sé ásættanleg fyrir bæjarfélagið miðað við aðstæður.

„Markmiðið var að ná sameiginlegri sýn á hver skuldavandi Reykjanesbæjar er, ásamt kröfuhöfum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem er langstærsti einstaki kröfuhafinn. Við höfum nálgast það nógu mikið að bæjaryfirvöld hafa ákveðið að halda áfram þeim viðræðum við kröfuhafa eignarhaldsfélagsins og óska ekki eftir því að bæjarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn. Það er smá vinna eftir í þessu og við ætlum að halda áfram með hana á næstum dögum og vikum. Við eigum síðan eftir að ræða við fjöldann allan af öðrum, smærri kröfuhöfum.“

Núverandi kyrrstöðutímabil Reykjanesbæjar og kröfuhafa er í gildi til 15. febrúar en Kjartan getur ekki sagt til hvort að samningar muni nást að fullu fyrir þann tíma. „Við munum gera okkar besta,“ segir Kjartan.

Núverandi skuldahlutfall bæjarins er 234% en samkvæmt sveitastjórnarlögum hafa sveitarfélög ákveðin frest til að koma því nðiur í lögbundið hámark, sem er 150%. Spurður hvort að þessir samnignar muni hafa þau áhrif að skuldaviðmiðið muni komast undir lögbundið hámark segir Kjartan svo ekki vera. „Ekki með þessu eingöngu, það þarf áfram að gæta mikils aðhalds í rekstri næstu sjö árin. En ef þetta fer eins og á horfir í dag þá er þetta mikilvægt skref í rétta átt. En þetta er ekki stóra lausnin í málinu, það þarf margt að koma til viðbótar.“