Reykjavíkurborg ver 800 milljónum í sérstök átaksverkefni tengdum viðhaldi á fasteignum borgarinnar í ár. Þetta er þriðja árið í röð sem 800 milljónum er bætt við hefðbundið viðhald fasteigna með sérstakri fjárveitingu á fjárfestingaráætlun, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá borginni.

Flest átaksverkefnanna eru viðhald grunn- og leikskóla og á þessu ári og því síðasta hefur áhersla verið lögð á regnþéttingu ytra byrðis fasteigna m.a. með múrviðgerðum, endurnýjun glugga og klæðninga.

Áhersla á viðhald grunn- og leikskólalóða

Einnig hefur verið lögð áhersla á viðhald grunn- og leikskólalóða með endurbótum af ýmsu tagi eins og endurnýjun leiktækja og fallvarnarefnis. Þá verður um 110 milljónum varið í viðhald íþróttamannvirkja s.s. þakviðgerðir á Reiðhöll í Víðidal og viðgerð á stúku við gervigrasvöllinn í Laugardalnum.

Í mörgum fasteignum eru gerðar ýmsar endurbætur vegna öryggis- og heilbrigðismála eins og eldvarna og hljóðvistar. Þá verða loftræstikerfi víða endurbætt eða endurnýjuð.

Flest verkefni í Vesturbæ og Miðborg

Alls eru 123 átaksverkefni í 87 fasteignum í eigu borgarinnar. Tuttugu og eitt verkefni voru boðin út fyrir samtals 270 milljónir sem er u.þ.b. þriðjungur fjárveitingarinnar.

Flest verkefnin eru unnin í Vesturbæ og Miðborg sem skýrist m.a. af aldri borgarhverfanna, en kostnaður skiptist nokkuð jafnt á hverfin út frá fjölda íbúa þ.e. ef frá eru skilin nýrri hverfi borgarinnar þar sem minni þörf er á viðhaldi.

Stærstur hluti viðhaldsverkefnanna fellur undir trésmíði eða rúmlega 60% en aðrir stórir verkþættir tengjast múrverki, viðhaldi á lóðum og loftræsingu.

Þakklæðningar endurnýjaðar á skólum

Meðal helstu verkefna voru endurgerð þakklæðningar Austurbæjarskóla og endurgerð á þökum Ölduselsskóla, Háaleitisskóla-Hvassaleiti og Háaleitisskóla-Álftamýri. Þök á leikskólunum Bakkaborg, Hálsaborg og Hólaborg voru einnig endurnýjuð.

Verið er að gera við útveggi Hólabrekkuskóla og Laugalækjarskóla og  ný utanhússklæðning var sett á íþróttahús og sundlaug Árbæjarskóla í sumar. Jafnframt voru ýmis konar endurbætur gerðar utanhúss á leikskólunum Austurborg, Laugasól-Lækjaborg, Langholti-Holtaborg og Langholti-Sunnuborg.

Meiri hluta þessara viðhaldsverkefna er nú þegar lokið og önnur langt komin, en öllum verkum verður lokið fyrir árslok.