Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og fulltrúar alþjóðlegu verslunarkeðjunnar Bauhaus undirrituðu í dag samning um kaup Bauhaus á lóð undir stórverslun fyrirtækisins við rætur Úlfarsfells, segir í tilkynningu.

Tveir stjórnarmenn Bauhaus, þeir Stefan Wolsiffer og Manfred Kummetz undirrituðu samninginn fyrir hönd fyrirtækisins.

Bauhaus var stofnað í Mannheim í Þýskalandi árið 1960. Fyrirtækið starfrækir 190 Bauhaus verslanir í 12 löndum og eru höfuðstöðvar þess í Þýskalandi. Um 12.000 starfsmenn vinna hjá Bauhaus verslunarkeðjunni sem starfar í fjölmörgum Evrópulöndum.

Bauhaus hyggst byggja um 20.000 fermetra byggingavöruverslun á lóðinni við Úlfarsfell og er það stærsta verslunarhús sinnar tegundar hér á landi. Framkvæmdir hefjast innan tíðar og stefnir fyrirtækið að því að opna verslunina í árslok 2008.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, sagði við undirritun samningsins í Höfða að hann fagnaði því að jafnöflugt fyrirtæki og Bauhaus hafi áhuga á að fjárfesta í Reykjavík. Hann sagði að með tilkomu verslunarkeðjunnar muni samkeppni aukast á byggingavörumarkaði á Íslandi sem stuðlað geti að lægra vöruverði til neytenda.