„Það má lengi deila um það hversu harkalega og langt er skynsamlegt að ganga í niðurskurði. Ég minni á að menn reyndu að stöðva sig af í útgjaldaaukningu um síðustu áramót eftir hrunið og í þeim fjárlögum sem þá voru afgreidd. Þá vissulega felldu menn niður ýmis góðærisverkefni sem þeir höfðu ætlað sér að auka fjárveitingar í. Kannski gengu menn ansi skammt þar,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Sé horft á útgjöld ríkissjóðs á næsta ári, án fjármagnstekna og fjarmagnsgjalda, lækka þau aðeins um 21 milljarð króna á verðlagi ársins 2009. Frá miðju þessu ári, þegar búið var að ráðast í aðhaldsaðgerðir, nemur lækkun útgjalda um tólf milljörðum króna.  Það hefur verið gagnrýnt, meðal annars af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að illa gangi að skera niður útgjöldin. Frá árinu 2003 hafa þau aukist um 150 milljarða króna á verðlagi þessa árs. Þá var talið að lífsgæði á Íslandi væru þau sjöttu bestu í heimi sé miðað við landsframleiðslu á mann.

Fjármálaráðherra segir að því verði varla á móti mælt að verið sé að taka mjög fast í útgjaldahliðinni og ýmsum þyki nóg um. Hann telur að tæpast verði gengið lengra í niðurskurði í einu skrefi en búið er að gera á miðju ári og nú aftur í fjárlögunum.

Nánar í Viðskiptablaðinu.