„Þetta leggst alveg frábærlega í mig. Þetta starf er alveg nýtt fyrir mér en ég næ samt mjög mikið að nýta fyrri störf. Mér finnst þetta því frábært tækifæri,“ segir Svava Sverrisdóttir, nýr lánastjóri hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Svava ólst upp í Vesturbænum, hefur búið þar stærstan hluta ævinnar og er mikill KR-ingur. „Ég fer á flesta leiki sem ég kemst á og við eigum alltaf ársmiða á völlinn í minni fjölskyldu. Ársmiðinn er orðinn partur af því sem keypt er á hverju ári.“ Hún er í sambúð með Stefáni Þór Ólafssyni, lögfræðingi hjá Logos, og eiga þau tvo syni, fimm og þriggja ára.

Spurð um áhugamál segist Svava vera skíðamanneskja. „Ég hef reynt að vera svolítið á skíðum, svona eins og tækifæri hafa gefist til. Þetta verður væntanlega svona fjölskyldusport þegar strákarnir stækka en maðurinn minn er líka mikill skíðamaður.“

Nánar er rætt við Svövu í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. ágúst 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.