Reynir Finndal Grétarsson, stofnandi Creditinfo, og Bjarni Gaukur Sigurðsson, einn stofnenda LS Retail, hafa stofnað þróunarfélag í kringum uppbyggingu miðbæjar og ferðaþjónustu á Blönduósi en báðir eru uppaldir Blönduósingar. Reynir segir við Morgunblaðið að upphafskostnaður verkefnisins sé um 200 milljónir króna og að á næstu fimm árum muni kostnaðurinn hlaupa á hálfum milljarði.

Félagið hefur gert samning við Byggðastofnun um kaup á hótelinu í gamla bænum sem hefur staðið autt. Auk þess hafa þeir fest kaup á tveimur eignum til viðbótar í gamla bænum.

„Okkur langar að opna hótelið og jafnvel stækka það og gera upp eitthvað af húsunum, því þessi gamli bær er algjör perla. Þetta snýst ekki bara um hótelið heldur líka um það að fá fólk til þess að stoppa á Blönduósi og uppgötva þennan stað. Flestir keyra í gegn og fá sér eina pylsu. Blönduós er ekki bara pylsa,“ hefur Morgunblaðið eftir Reyni.

Hann telur að vannýtt tækifæri leynist í að ríflega 700 þúsund bílar keyri árlega í gegnum bæinn. Fáir stoppi þó á Blönduósi þar sem engin afþreying er til staðar. Reynir bindur því vonir við ráðist verði í uppbyggingu á ferðaþjónustu á svæðinu og vill sjá burtflutta Blönduósinga taka þátt í verkefninu. Hann bendir á að í kringum Blönduós séu margar náttúruperlur, veiði í vötnum og ám og stutt í næsta skíðasvæði.

Sjá einnig: Telur fjárfesta vanmeta Sýn verulega

Reynir hefur mikið í umræðunni síðustu vikurnar eftir að nýstofnaða fjárfestingafélagsið Gavia Invest varð stærsti hluthafi Sýnar, m.a. eftir að hafa keypt allan 12,7% eignarhlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra fjarskiptafélagsins. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun mánaðarins að Reynir væri aðaleigandi Gavia.