Reynir Kristinsson hefur verið ráðinn deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans á Bifröst, segir í fréttatilkynningu.

Reynir hefur á undaförnum árum gegnt ýmsum lykilstörfum í íslensku atvinnulífi sem ráðgjafi og stjórnandi en hann hefur á ferli sínum m.a. verið framkvæmdastjóri ParX, IBM Business Consulting Service á Íslandi, PricewaterhouseCoopers og Hagvangs. Reynir hefur jafnframt verið stjórnarformaður CCP, Hagvangs og fleiri fyrirtækja.

Reynir Kristinsson er verkfræðingur að mennt frá Tækniháskólanum í Óðinsvéum ásamt því að hafa MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Reynir hefur á liðnum árum í starfi sínu leitt stefnumörkunar- gæðastjórnunar- og breytingastjórnunarverkefni í fjölmörgum stærstu og öflugustu fyrirtækjum og stofnunum landsins.

Auk þess hefur hann sinnt stundakennslu við íslenska háskóla og starfað að ýmsum tímabundum verkefnum svo sem framkvæmdastjórn stjórnunar- og fjármálasviðs Landsspítlala Háskólasjúkrahúss og starfi aðstoðarmanns menntamálaráðherra.

Rektor Háskólans á Bifröst ræður í stöðu deildarforseta en sérstök valnefnd var honum til ráðgjafar um ráðningarferli og mat umsókna. Í henni sátu ásamt rektor, stjórnarformaður háskólans og tveir fulltrúar kjörnir af deildarfundi. Niðurstaða valnefndar um tillögu til rektors um ráðningu Reynis var einróma.

Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst er stærsta og elsta deild háskólans. Við deildina stunda um 300 nemendur nám en alls sóttu 209 nemendur um nám við deildina á yfirstandandi háskólaári. Deildarforseti er framkvæmdastjóri deildar, stýrir deildarfundum og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri deildarinnar.

Hann leiðir jafnframt stefnumörkun hennar, er talsmaður deildarinnar og kemur sem slíkur fram fyrir hennar hönd jafnt innan skólans sem út á við. Deildarforseti ræður starfsfólk, stundakennara og aðjúnkta og gerir tillögur til stjórnar um ráðningu lektora, dósenta og prófessora.

Reynir Kristinsson er giftur Lilju Guðmundsdóttur gjaldkera hjá Reykjavíkurdeild Rauðakrossins og eiga þau fjögur börn.