Ef viðskiptum við fyrrverandi hluthafa Baugs, þ.e. Gaum, Gaum Holding, ISP og Bague, verður rift af dómstólum verða félögin gjaldþrota, að því er Morgunblaðið hefur eftir Gísla Guðna Hall, lögmanni félaganna þriggja. Þrotabú Baugs vill rifta viðskiptum þar sem Baugur keypti hlutabréf í sjálfum sér fyrir 15 milljarða króna af helstu eigendum félagsins.

Krafan hljóðar upp á 15 milljarða króna og tengist yfirtöku á Högum árið 2008. Gísli Guðni Hall, lögmaður umræddra félaga, segir fyrirséð að fyrirtækin geti ekki staðið undir kröfunum.

„Það er vegna þess að viðskiptin sem dómsmálið varðar voru hagstæð fyrir Baug, en afar óhagstæð fyrir hluthafana. Skuldbindingarnar sem félögin tóku yfir í þessum samningi voru miklu meiri en eignirnar. Félögin töpuðu á þessum viðskiptum gríðarlegum fjárhæðum,“ segir hann og vísar til þess þegar hluthafar í Baugi keyptu Haga af fjárfestingarfélaginu skömmu fyrir bankahrun.