Þrotabú Milestone hefur höfðað tíu riftunarmál gegn fyrri eigendum og stjórnendum félagsins. Stefnurnar voru þingfestar í lok síðustu viku. Flest málanna snúa að bræðrunum Karli og Steingrími Wernerssonum, sem voru aðaleigendur Milestone, og Guðmundi Ólasyni, fyrrum forstjóra félagsins.

Þetta eru mun færri mál en skiptastjóri þrotabúsins, Grímur Sigurðsson, kynnti á kröfuhafafundi 15. mars síðastliðinn. Þá var tilkynnt um alls 22 fyrirhugaðar málshöfðanir og sagt að enn væri verið að kanna á annan tug mála þar sem riftun væri möguleg. Grímur staðfestir við Viðskiptablaðið að fleiri mál verði ekki höfðuð.

Ógjaldfært frá haustinu 2007

Viðskiptablaðið hefur hluta úr riftunarstefnunum undir höndum. Í þeim öllum er rauði þráðurinn umfjöllun um ógjaldfærni Milestone á þeim tíma sem riftanlegu gjörningarnir áttu sér stað.

Samkvæmt ársreikningi Milestone fyrir árið 2007 var fjárhagsstaða félagsins geysisterk. Í stefnunum er hins vegar bent á að ársreikningar séu samdir af stjórn og stjórnendum félagsins og því ekki hlutlaus greining á stöðu þess. Karl og Steingrímur áttu samtals 95% í Milestone og sátu báðir í stjórn félagsins. Þá átti forstjórinn Guðmundur 1,5% eignarhlut. Í stefnunum segir að þeir hafi því allir átt „gríðarlega hagsmuni af gengi félagsins“.

Í stefnunum færir skiptastjórinn rök fyrir því að könnun á bókhaldi Milestone bendi „sterklega til þess að félagið hafi verið komið í veruleg greiðsluvandræði a.m.k. frá og með haustinu 2007 [...] Jafnvel þótt stjórnendur og aðrir hafi talið að staða félagsins hafi verið góð fram á síðustu mánuði ársins 2008 hefur seinni tíma könnun á staðreyndum leitt í ljós að svo var alls ekki“.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.