Samkvæmt fréttatilkynningu frá teymi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi, sem leitt er af Mark Flanagan, er stefnt að þriðju endurskoðun samnings Íslands og sjóðsins snemma í september. Fulltrúar AGS hafa verið hér á landi síðustu daga í viðræðum við stjórnvöld.

Í yfirlýsingu Franek Rozwadowski, sendifulltrúa AGS hér á landi, segir að fulltrúar AGS hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að þriðja endurskoðun geti farið fram. Nokkur tæknileg atriði hafa þó áhrif. Ekki er sagt hver þau eru.

Jafnframt segir að til þessa hafi náðst nokkur árangur. Efnahagskreppan hefur verið minni en talið var, verðbólga hefur hjaðnað og krónan stöðugri. Einnig segir Rozwadowski að fjármál hins opinbera hafi styrkst og eftirlits- og regluverk bankastofnanna einnig.