Ríkarður Ríkarðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landsvirkjunar Power ehf. og tekur við rekstri félagsins í byrjun júlí. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Landsvirkjun Power ehf. er dótturfélag að fullu í eigu Landsvirkjunar sem um tíu ára skeið hefur veitt ráðgjöf erlendis vegna þróunar, byggingar og reksturs vatnsafls- og jarðvarmavirkjana. Ráðgjafarþjónusta félagsins byggir á víðtækri þekkingu og reynslu starfsmanna Landsvirkjunar. Starfsmenn félagsins eru átta, auk samnýttra starfskrafta Landsvirkjunar.

Ríkarður hefur unnið hjá Landsvirkjun frá árinu 2011 og síðustu fimm ár gegnt stöðu forstöðumanns viðskiptaþróunar og sölu hjá fyrirtækinu. Ríkarður var stjórnendaráðgjafi hjá McKinsey & Company árin 2009-2011. Árin 2006-2009 starfaði Ríkarður sem forstöðumaður og ráðgjafi hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og 2002-2006 fyrir bandarískt hátæknifyrirtæki í Kísildal og stýrði evrópskri viðskiptaþróun þess í London.

Hann er verkfræðingur með M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum og lýkur PED námi í stjórnun í sumar við IMD háskólann í Sviss. Sambýliskona Ríkarðs er Fríður Guðmundsdóttir og eiga þau tvö börn.