Ríkasti maður í heimi, bandaríski fjárfestirinn Warren Buffet, hefur keypt 30 hrað- og langfleygar einkaþotur, hlaðnar munaði, sem hann hyggst leigja út til evrópskra leiðtoga, íþróttamanna, kvikmynda- og poppstjarna og annarra þeirra sem vaða í seðlum.

Buffet er eldri en tvævetra í viðskiptum og hefur orð á sér fyrir mikla framsýni í viðskiptum. Hann veðjar nú á að eftirspurn eftir einkaþotuflugi muni hríðaukast á næstu misserum, ekki síst þar sem hinir auðugu og frægu vilji losna við þvingandi og tímafrekt öryggiseftirlit og margs konar formsatriði í flugstöðvum heimsins.

Pakkinn kostar 15-16 milljarða

Fyrirtæki í eigu Buffet, NetJets Europe, keypti 30 þotur af gerðinni Dassault Falcon 2000LX, sem geta bæði lent á stuttum flugbrautum og flogið 7400 kílómetra án millilendingar.

Mun framleiðandinn afhenda vélarnar eina af annarri á næstu misserum og hljóðar verðmiðinn á um 15-16 milljarða króna.