Temasek Holdings, fjárfestingasjóður í eigu ríkisins í Singapúr, hyggst fjárfesta allt að fimm milljarða dollara í Merrill Lynch, að því er kemur fram í Wall Street Journal. Merrill hefur ekki farið varhluta af undirmálslánavandræðunum og í október tilkynnti bankinn að hann hefði afskrifað 8,4 milljarða dollara vegna vandræðalána sem tengdust fasteignum og fyrirtækjum.

Stjórn Temaseks hefur gefið leyfi fyrir fjárfestingunni að sögn blaðsins. Að sögn heimildarmanns Bloomberg-fréttastofunnar kaupa opinberir fjárfestingasjóðir nú í vaxandi mæli hluti í bönkum sem lækkað hafa í verði vegna þeirra lausafjárþurrðar og undirmálslánavandamála sem nú skekja alþjóðlega bankakerfið.