Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í gær að brýnt væri að ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins, en að þar væri ekki forsenda að ríkið eigi allt bankakerfið. Sagði hún að ekki væri skynsamlegt fyrir ríkið að bera ábyrgð á helstu fjármálastofnunum landsins.

„Það liggur fyrir í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin vill með skynsamlegum hætti draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Það er heldur ekki skynsamlegt fyrir ríkið að bera megin-ábyrgð á öllum helstu fjármálastofnunum landsins,“ sagði Katrín.

Jafnframt sagði forsætisráðherra að mikilvægt væri að taka afstöðu til lykilspurninga um viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, gagnsæi eignarhalds og hæfi eigenda. Endurheimtur ríkisins úr fjármálakerfinu ættu að skila sér til almannagæða og innviðauppbyggingar.

„Ef við frestum uppbyggingu innviða er það hins vegar ávísun á lífskjaraskerðingu hér á næstu árum. Við látum það ekki gerast,“ sagði Katrín. „Fjárfesting í innviðum tryggir hagvöxt en eykur líka jafnræði meðal fólks.“

Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi vék forsætisráðherra einnig að stöðunni á vinnumarkaði. Sagði hún að samtal við aðila á vinnumarkaði væri eitt stærsta verkefnið í hennar ráðherratíð.

„Það verkefni snýst um að skapa ábyrgan vinnumarkað, tryggja öflugt velferðarkerfi og tryggja hagsæld okkar allra.“

Í máli hennar kom einnig fram að ráðist yrði í breytingar á fyrirkomulagi kjararáðs og að í þessari viku myndi starfshópur skipaður aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum ríkisins skila tillögum um hvernig hægt yrði að breyta því.

Katrín sagði einnig að hlutverki Þjóðhagsráðs yrði breytt þannig að félagslegur stöðugleiki verði hluti af verkefni þess en ekki eingöngu efnahagslegur stöðugleiki.