Sala umsýslufélags gjaldþrotaeigna Kaupþings á 20% eignarhlut í Arion banka fyrir 27,4 milljarða króna þýðir að íslenska ríkið fær 9,8 milljarða af því vegna samninga um stöðugleikaframlög bankans sem gerður var í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Kaupin munu taka gildi fimmtudaginn 11. júlí næstkomandi, en þau byggja á bindandi tilboði sem gert var mánudaginn 1. júlí síðastliðinn að því er fram kom í fréttatilkynningu frá Kaupþing.

Eins og sagt var frá í fréttum í hádeginu er vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem hefur verið stærsti hluthafi í Kaupþing með 48% eignarhlut, nú orðinn stærsti eigandinn í Arion banka í stað Kaupþings, með um 25% í viðskiptabankanum.

Paul Copley framkvæmdastjóri Kaupþing segir þessa sölu á stærstu eign félagsins sem eftir hafi verið sé stórt skref í átt til endanlegra slita félagsins.