Svo gæti farið á næstu árum að ríkið þurfi að leggja A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) til mikla fjármuni, milljarða króna, til þess að jafna misvægi á milli eigna og skulda hennar. Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag og segir heildarstöðu A-deildar vera neikvæða um 47,4 milljarða króna, eða 12%.

Alþingi hefur brúað bilið frá hruni með því að veita sjóðnum undanþágu frá ákvæði laga um lífeyrissjóði sem segir heildarstöðu A-deildar ekki vera neikvæð svo nemi meiru en 10%. Samkvæmt undanþágunni má heildarstaða A-deildar LSR vera neikvæð um 15%. Heildarstaða eru áunnin réttindi sjóðsfélaga auk núvirtra réttinda sem núverandi sjóðsfélagar munu vinna sér inn. Bæta þarf heildarstöðu um 8 milljarða króna til að koma henni niður fyrir 10% marki.

Haft er eftir Hauki Hafsteinssyni, framkvæmdastjóra LSR, að verið sé að skoða hvernig best sé að rétta skútuna af. Það sé hins vegar erfitt að sjá hvernig mál þróast á þessu ári. Staðan hafi batnað úr 13,2% í 12% frá síðustu áramótum þrátt fyrir erfitt umhverfi.