Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ásamt 15 þingmönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar, hefur lagt fram að nýju frumvarp um að sala á áfengi verði gefin frjáls.

Jón Björnsson, forstjóri Festi eignarhaldsfélags sem rekur matvöruverslanirnar Krónuna, Nóatún og Kjarval var í viðtali við Viðskiptablaðið nú fyrir stuttu. Í viðtalinu var hann spurður að því hvað honum finnist um frumvarpið og hvort Festi hafi áhuga á að fara í áfengisverslun, verði frumvarpið að lögum, segir Jón að það sé ekki hans sem kaupmanns að hafa skoðun á því, heldur pólitíkusanna. „Ég kaupi vörur og ég sel vörur. Það er mitt hlutverk,“ segir hann.

„Ef þetta verður gefið frjálst þá tökum við að sjálfsögðu þátt í því vegna þess að þetta er áhugavert smásöluumhverfi. Ég veit reyndar ekki hvað ríkið mun gera við sínar áfengisverslanir. Nú rekur það tvær áfengisverslanir. Annars vegar þessa sem er ekki í neinni samkeppni en heyrir hins vegar undir samkeppnislög og hins vegar þessa sem er að selja vín og alls konar annað, er í samkeppni en heyrir ekki undir samkeppnislög. Það er Fríhöfnin. Það er alveg sérstakt mál sem enginn vill tala um. Þetta fyrirkomulag er bara skattlagning á þá sem ferðast lítið og skattaleg fríðindi fyrir þá sem ferðast mikið. Það er hvergi hærri álagning í íslenskri verslun heldur en í Fríhöfninni. Framlegðin þar er tæp fimmtíu prósent. Við erum með fimmtán prósenta framlegð í Krónunni, í kringum tuttugu í Elko. Það er fimmtíu prósenta framlegð í Fríhöfninni. En hún borgar engan virðisaukaskatt, enga tolla en borgar hins vegar rosalega húsaleigu, til ríkisins, og hvað fer hún í? Hún niðurgreiðir flugvallastarfsemi – fyrir hvern? Þá sem ferðast."

Viðtalið við Jón má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .