Ríkisendurskoðun telur að fást þurfi niðurstaða um hvort breyta eigi umfjöllum um tilteknar skuldbindingar ríkisins vegna verk-, leigu- og þjónustusamninga sem gerðir eru til langs tíma, lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar sem tengjast einkaframkvæmdum og styrkveitingum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun sem birti í dag skýrslu um ríkisábyrgðir og fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins sem ekki koma fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Skýrsluna var unnin í kjölfar þess að forsætisnefnd, að frumkvæði Péturs H. Blöndals alþingismanns, fór fram á að slík skýrsla yrði gerð.

Þar kemur fram að Alþingi fari með fjárstjórnarvald ríkisins samkvæmt stjórnarskrá. Hins vegar hafi þingið framselt hluta af þessu valdi sínu til ráðherra. Hann geti því að vissu marki stofnað til fjárhagslegra skuldbindinga án þess að þingið samþykki þær.

Nokkur mál eru tekin fyrir í skýrslunni, þar sem ríkissjóður hefur eða gæti átt eftir að taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar. Meðal þeirra er yfirlýsing stjórnvalda um fulla ríkisábyrgð á innstæðum í bankaútibúum hér á landi. Sú ábyrgð hefur ekki verið lögfest. „Ekki þarf þó að mati Ríkisendurskoðunar að efast um vilja eða getu stjórnvalda til að ábyrgast innstæður hér á landi. Þar sem ekki er um lagalega skuldbindingu að ræða er hún ekki sýnd í ríkisreikningi en umræddra yfirlýsinga er þó getið í skýringum með ríkisreikningi fyrir árið 2010. Að mati Ríkisendurskoðunar telst þetta fullnægjandi birting,“ segir Ríkisendurskoðun.

Hvað varðar ríkisábyrgð á réttindum félaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) segir Ríkisendurskoðun að það sé álitamál hvort ekki sé rétt að færa neikvæða stöðu sjóðsins til skuldar í ríkisreikningi. Staðan í lok árs 2010 var neikvæð um rúmlega 47 milljarða króna.

Einnig er fjallað um skuldbindingar varðandi Icesave-reikninga gamla Landsbankans, leigusamninga og byggingu nýs Landspítala.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar .