Jóhann Ólafsson og Co., umboðsaðili OSRAM á Íslandi, undirritaði í gær samning við Ríkiskaup um sölu á ljósaperum til liðlega 650 fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga, sem í dag eiga aðild að rammasamningakerfi Ríkiskaupa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá OSRAM.

Þar kemur fram að samningurinn er gerður í kjölfar útboðs sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu í maí síðast liðnum og er hann til tveggja ára.

Heimilt er að framlengja samninginn tvisvar sinnum í eitt ár hvort skipti. Við mat á tilboðum var litið til þriggja meginþátta en það eru verð, þjónusta og hve breitt vöruúrval einstaka aðilar gátu boðið.

Samkvæmt tilkynningunni gildir samningurinn frá 1. september næst komandi og tryggir öllum fyrirtækjum og stofnunum sem eru aðilar að rammasamningi Ríkiskaupa aðgang að fjölbreyttu úrvali hágæða ljósapera frá OSRAM á hagstæðum kjörum.

Þótt ekki sé tilgreint hve mikið magn verður keypt á samningstímanum er ljóst að um umtalsvert magn verður að ræða.

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með að hafa náð þessum samningi við Ríkiskaup því með honum nálgumst við mjög öflugan hóp stórnotenda. Við teljum að það yfirgripsmikla og fjölbreytta úrval hágæða ljósapera sem við bjóðum muni henta þessum fyrirtækjum og stofnunum vel. OSRAM býður yfir 4500 tegundir af perum þannig að hér eftir geta þessir aðilar fengið allar þær perur sem þá vantar á einum stað og á hagstæðasta verði sem í boði er á markaðinum,” segir Guðmundur Pétur Yngvason markaðsstjóri á Lýsingasviði, Jóhanns Ólafssonar & Co. í tilkynningunni.