Ríkissjóður Íslands endurgreiðir fyrirfram í vikunni lán frá Póllandi sem tekið var árið 2009 í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda eftir fall fjármálakerfisins, sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármálaráðuneytisins .

Um er að ræða endurgreiðslu að fjárhæð 204 milljónir slota, jafnvirði um 7,3 milljarða króna. Lánsloforð Pólverja var upp á 630 milljónir slota og þar af nýtti Ísland um þriðjung. Lánið var á gjalddaga á árunum 2015-2022 .

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Mateusz Szczurek fjármálaráðherra Póllands undirrituðu í dag viðauka við lánssamning Póllands við ríkissjóð sem gerir ríkissjóði kleift að forgreiða lánið.

„Með því að bjóða Íslandi lán á erfiðum tímum og leggja þannig þjóðinni lið við endurreisn landsins sýndu Pólverjar Íslendingum mikið vinarbragð. Slík vinátta er dýrmæt og íslenska þjóðin þakkar fyrir hana,“ sagði Bjarni Benediktsson á fundi ráðherranna í dag.

Fram kemur að endurgreiðslan á láninu marki tímamót, en með henni ljúki uppgjöri á þeirri aðstoð sem Ísland fékk frá vinaþjóðum í formi lána í kjölfar hrunsins.