Ríkissjóður Bretlands framdi umtalsverð afglöp í meðhöndlun gagnvart Icesave krísunni og Íslandi. Einkenndist meðferðin af ógagnsæjum og mótsagnarkenndum vinnubrögðum og láðist að hafa náið samstarfi við bresku ríkisstjórnina. Þá voru breskir sparifjáreigendur aldrei varaðir við hættunni. Fjallað var um málið í úttekt Telegraph fyrir helgi.

Þetta eru aðeins nokkrar af fjölmörgum ásökunum sem sagðar eru koma fram í 69 trúnaðarskjölum og fundargerðum sem íslensk yfirvöld hafa haldið saman um átökin við Bretland í kjölfar hruns Landsbankans, Kaupþings og Glitnis.

Bent er á að breski ríkissjóðurinn hafi margsinnis á árinu 2008 farið fram á að Íslendingar myndu bregðast við hættunni í íslenska fjármálageiranum. Samt hafi breskir sparifjáreigendur aldrei verið varaðir við.

Vitnað er í margvísleg gögn og m.a. ásakanir Árna M. Matthiesen þáverandi fjármálaráðherra sem sakaði Breta um að flytja viðkvæmar tilkynningar um utanríkismál í beinni útsendingu í BBC Today.

Þá er einnig fjallað um átök um hvort breskum stjórnvöldum hafi verið heimilt að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi þegar þau óttuðust að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar varðandi Icesave.

Vitnað er í Paul Dacam og Charles Brasted hjá lögfræðistofunni Lovells sem komust að þeirri niðurstöðu að það hefðu verið framin umtalsverð afglöp í réttlætingu breskra yfirvalda á aðgerðum varðandi frystingu á eignum Landsbankans.

Einnig er greint frá hörðum viðbrögðum almennings á Íslandi þegar beitt var hryðjuverkalögum gagnvart landi og það sett að jöfnu við Talibana og al-Qaeda.

Vísað er til fyrirliggjandi samnings um Icesave deiluna sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Þúsundir Íslendinga hafi á undanförnum vikum mótmælt á götum úti samþykkt á slíkri lántöku. Þar segir að ef samningurinn verði felldur muni það um leið fella nýju vinstri grænu ríkisstjórnina og leiða menn að nýju að samningaborðinu. Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins telji hins vegar að Icesave samningurinn milli Breta, Hollendinga og Íslendinga feli í sér góðar fréttir fyrir breska skattgreiðendur og líka fyrir Íslendinga.