Í því skyni að treysta innheimtu veðskulda, hefur fjármálaráðuneytið gengið frá lánasamningum við Saga Capital fjárfestingarbanka hf. og VBS fjárfestingarbanka hf. um endurgreiðslu þessara krafna.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins en með samningnum er verðbréfum breytt í lán til sjö ára sem er verðtryggt með 2% vöxtum.

Lánið er þó ekki veit skilyrðalaust því lántakendurnir hafa fallist á að neðangreind skilyrði séu forsenda fyrir skuldbreytingu þessari. Standi þeir ekki við þau skilyrði meðan skuld vegna lánsins er enn ógreidd getur lánveitandi með skriflegri tilkynningu með 30 daga fyrirvara til skuldara gjaldfellt allt lánið.

Meðal skilyrðanna er að arður skal ekki greiddur út á lánstímanum, nema til komi samsvarandi niðurgreiðsla á höfuðstóli þessa láns. Þá skal kaupaukum til starfsmanna stillt í hóf og vera í samræmi við gengi lántaka og almennar launagreiðslur og umbun á fjármálamarkaði.

Þá verður kaup lántaka á eigin bréfum til niðurfærslu hlutafjár (óbein arðgreiðsla) ekki heimil, en kaup eigin bréfa í veltubók lántaka og innlausn/skuldajöfnun eigin bréfa til fullnustu á lánveitingum eða öðrum skuldbindingum gagnvart lántaka eru heimil innan heimilda laga hverju sinni.

Sjá nánar á vef fjármálaráðuneytisins.