Ríkisskuldabréf hækkuðu í verði í síðustu viku, sérstaklega óverðtryggð bréf og því lítur út fyrir að dregið hafi úr verðbólguótta fjárfesta. Þetta kemur fram í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Jafnframt virðast fjárfestar ekki lengur eiga von á vaxtahækkun alveg í bráð. Löng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,44% og millilöng verðtryggð skuldabréf hækkuðu um 0,21%. Löng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 2,18% og millilöng óverðtryggð skuldabréf hækkuðu um 1,70%.

Næsti vaxtaákvörðunardagur SÍ er 17. ágúst og þann dag mun bankinn jafnframt gefa út Peningamál. Við reiknum frekar með því að peningastefnunefnd bankans haldi vöxtum óbreyttum. Ástæða þess er einkum sá óróleiki sem er á erlendum mörkuðum um þessar mundir ásamt því að slakinn í þjóðarbúskapnum er enn mikill.

Hagstofan mun birta tölur um hagvöxt fyrir annan ársfjórðung þann 8. september og teljum við að peningastefnunefndin bíði þeirra talna áður en hún tekur ákvörðun um hækkun stýrivaxta.