Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hélt sinn fyrsta fund í dag og sem kunnugt er var hann haldinn á Akureyri.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu nam heildarkostnaðurinn við að flytja þá ráðherra sem fundinn sóttu norður á land, um 400 þúsund krónum.

Inn í þeirri tölu eru flugferðir ráðherra auk þess sem Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytisins var með í för en hún er jafnframt fundarritari ríkisstjórnarinnar.

Eins og fyrr segir er hér um að ræða kostnað við flug en ekki hefur verið tekin saman mögulegur kostnaður við ferðir til og frá flugvelli, matur og gisting. Hvert ráðuneyti greiðir allan kostnað fyrir sinn ráðherra.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðneytisins segir að nokkrir ráðherranna hafi nýtt daginn til að funda í kjördæminu. Það eru þeir Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason og Kristján L. Möller. Þá hafi Katrínu Júlíusdóttir, Árni Páll Árnason og Ragna Árnadóttir einnig fundað með stjórnendum þeirra stofnana sem undir ráðuneyti þeirra heyra.

Kristjan tekur fram að ráðherrar ferðist reglulega um landið til funda með stjórnendum stofnana og dagurinn í dag var nýttur undir slíka fundi.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra forfallaðist og sótti því ekki fundinn norðan heiða.