Hinn heillum horfni farsímaframleiðandi RIM, sem frægastur er fyrir Blackberry símana, hefur tekið enn eina viðskiptaákvörðunina sem virðist til þess eins fallin að láta áhorfendur klóra sér í kollinum.

PlayBook spjaldtölvan átti að vera svar RIM við iPad tölvu Apple, en naut ekki þeirra vinsælda meðal neytenda sem stjórnendur RIM höfðu vonast eftir, einkum eftir að Amazon kynnti hina ódýru Kindle Fire spjaldtölvu fyrir jól. Þess vegna hafa allar PlayBook spjaldtölvur verið settar á útsölu í vefverslun RIM, en athygli vekur að þær kosta allar jafnmikið.

Sextán gígabæta tölvan kostar 299 dali, sem er sama verð og er á 32 gígabæta tölvunni og á 64 gígabæta tölvunni. Ekki er við því að búast að margar 16 gígabæta tölvur seljist á meðan birgðir endast af þeim stærri.