Ringulreið er sögð ríkja innan UBS, stærsta banka Sviss. Oswald Grübel, forstjóri bankans, sagði af sér á laugadag í kjölfar þess að bankinn tapaði 2,3 milljörðum dala vegna ólögmætra viðskipta miðlara sem starfaði í starfsstöð UBS í London.

Uppsögn Grübel, sem tók við bankanum í febrúar 2009, þykir mikið áfall. Í kjölfar fjármálakreppunnar sem skall á heimsbyggðina haustið 2008 tapaði UBS metfé.  Undir stjórn Grübel náði UBS hins vegar að snúa vörn í sókn og skila reglulegum hagnaði. Grübel er þriðji forstjóri UBS frá árinu 2007.

Á Bloomberg er haft eftir Cristopher Wheeler, greinanda hjá Mediobanca Securities SpA í London, að ringulreið ríkti nú innan UBS. Hann telur að stjórn UBS hafi gert hræðileg mistök með því að telja Grübel ekki ofan af því að hætta. Banki Wheeler lækkaði mat sitt á UBS í dag.

Sergio Ermotti tók tímabundið við starfi Grübel. Leit er hafin af framtíðareftirmanni.