Þetta staðfesta Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Báðir segjast þeir tiltölulega ánægðir með núverandi fyrirkomulag einkasölu ríkisins á áfengi. Árni gefur ekki upp afstöðu Vífilfells til afnáms á einkasölu áfengis en Andri Þór segir Ölgerðina almennt séð fylgjandi auknu frelsi til viðskipta. Hið sama gildi um áfengi.

Allir jafnir í núverandi kerfi

Árni Stefánsson segir aðspurður að afstaða Vífilfells sé sú sama og komi fram í umsögn félags Félags atvinnurekenda (FA) um frumvarpið.

Þið kvittið undir það?

„Já, akkurat," segir Árni.

Þannig að þið leggist gegn þessu frumvarpi?

„Já, algjörlega. Það er það gallað."

Hvernig þyrfti það að vera í ykkar huga til þess að þið mynduð vilja samþykkja það?

„Ég vil ekki fara út í það."

Hver er almenn afstaða ykkar til afnáms á einkasölu ríkisins á áfengi?

„Við höfum ekki gefið út neina yfirlýsingu með það. Afstaða okkar byggir á þeim frumvörpum sem koma fram og hvað er inni í þeim. Þetta er svo rosalega víðtækt. Það er svo margt sem kemur inn í þetta, eins og þetta auglýsingar og þessháttar. Það þarf að taka afstöðu til þess þegar frumvörpin liggja fyrir, hvort við erum með eða á móti. Það er það eina sem ég get sagt varðandi það.“

En á almennari nótum, eruð þið ánægðir með núverandi fyrirkomulag?

„Ja, það virkar. Það hafa allir jafnan rétt. Það er kannski það sem að er kosturinn við þetta. Hvort sem þú ert lítill eða stór þá hefur þú nákvæmlega sama aðgang. Það er kosturinn við þetta.“

Ótækt að ekki sé hægt að hafa áhrif á framboðshliðina

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segist jafnframt vera á móti því að frumvarp Vilhjálms Árnasonar verði samþykkt í óbreyttri mynd. Til þess sé það haldið of miklum annmörkum. Mestu máli skipti að ekki verði hægt að auglýsa áfengi samhliða frjálsri sölu þess og ekki gangi að samþykkja frjálsa sölu án þess að leyfa auglýsingar líka. Þetta komi einnig fram í umsögn FA.

Hver er almenn afstaða Ölgerðarinnar til frjálsrar sölu áfengis?

„Það er bara grundvallarviðhorf okkar til viðskipta að þau eigi að vera frjálsari," segir Andri.

Eruð þið ánægðir með núverandi sölufyrirkomulag?

„Við höfum átt mjög gott samstarf við ÁTVR sem hafa að mörgu leyti staðið sig frábærlega."