*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 10. nóvember 2004 14:52

Róbert Wessman í Viðskiptaþættinum

ásamt nýju olíufélagi, DVD Kids og íslenskri húsgagnahönnun

Ritstjórn

Í Viðskiptaþættinum sem hefst klukkan 16 á Útvarpi Sögu FM 99,4, verður rætt við Róbert Wessman forstjóra Actavis sem hefur birt níu mánaða uppgjör sitt. Hagnaður af rekstri félagsins var 48 milljónir evra en tekjur jukust um 36,9% í ársfjórðunginum. Uppgjörið var undir væntingum KB banka, en Róbert segir árangur hafa verið mjög góðan á mörgum sviðum hjá félaginu.

Íslenska fyrirtækið 3-Plus stendur nú í ströngu við að selja afurð sína sem hefur verið í þróun frá árinu 1999, DVD-Kids heitir það en um er að ræða leiktæki fyrir börn sem tengt er DVD spilara heimilisins. Fisher Price selur tækið í Bandaríkjunum undir vörumerki sínu, og er það nú vinsælasta leikfang fyrirtækisins í vefverslunum í Bandaríkjunum. Við ætlum að spjalla við Jóhannes Þórðarson, sem hefur unnið að þróun tækisins.

Mitt í umræðunni um samráð olíufélaganna hefur nýtt olíufélag stigið fram, Íslensk olíumiðlun heitir það en félagið er að reisa birgðarstöð á Neskaupstað. Áætlað er að félagið byrji að afgreiða gasolíu til skipa í byrjun næsta árs, en Íslensk olíumiðlun hefur verið að tryggja sér viðskiptavini undanfarið. Framkvæmdastjóri félagsins, Ólafur Kjartansson, segir okkur nánar frá því.

Við ljúkum þættinum í dag á að kynna okkur störf Erlu Sólvegar Óskarsdóttur, en hún er húsgagnahönnuður sem hefur náð miklum árangri í starfi. Erla hefur verið ráðin til að hanna stól sem fer á markað í Kólumbíu, Brasilíu og Bandaríkjunum, en hönnun Erlu Sólveigar hefur áður verið seld í Suður-Ameríku auk Evrópu.

Þátturinn er endurfluttur klukkan eitt í nótt. Á föstudögum klukkan 16 eru endurflutt valin viðtöl út þáttum vikunnar.