*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 2. mars 2019 11:05

Rólegri tímar framundan

Að nokkrum óvissuþáttum undanskildum eru horfur í efnahagsmálum til millilangs tíma nokkuð góðar.

Júlíus Þór Halldórsson
Þótt tugprósenta ársfjölgun ferðamanna sé nú liðin tíð er ljóst að ferðamannalandið Ísland er komið til að vera.
Haraldur Guðjónsson

Hagstofan birti uppfærða Þjóðhagsspá þann 22. febrúar síðastliðinn, en í henni var hagvaxtarspá fyrir árið 2019 lækkuð úr 2,5% í nóvember síðastliðnum, í 1,7%. Breytinguna má að mestu leyti rekja til versnandi horfa í ferðaþjónustu, sem draga væntan vöxt útflutnings niður.

Þá hefur verðbólguspá fyrir árið farið hækkandi, úr 2,9% síðasta sumar í 3,8% í síðustu spá, vegna sígandi gengis krónunnar, og mikil óvissa er sögð í þeim efnum vegna ferðaþjónustu og útkomu kjarasamninga.

Kólnun hagkerfisins hefur þó lengi verið í kortunum. Ljóst var orðið strax síðasta sumar að hægja væri farið á fjölgun ferðamanna, og enn lengra er síðan gríðarlegar hækkanir fasteignaverðs tók að lægja, þótt enn sé töluverður skortur á íbúðarhúsnæði, svo dæmi séu tekin.

Staðan er auk þess ekki alslæm. Eignastaða hagkerfisins er sterk og atvinnuleysi mældist í sögulegu lágmarki árið 2018. Þess fyrir utan er vert að hafa í huga að enn bendir fátt til þess að eiginlegur samdráttur hagkerfisins sé á næsta leiti, þótt hægja hafi tekið á eftir methagvexti síðustu ára.

Fallandi vöxtur einkaneyslu en sterk eignastaða
Langtum veigamesti undirliður landsframleiðslu er einkaneysla, sem stendur undir rétt um helmingi hennar um þessar mundir, og hlutfallið fer hækkandi. Vöxtur hennar mældist 7,9% árið 2017, og 5,4% á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2018, en því er spáð að hann endi í 4,8% fyrir árið, verði 3,6% fyrir árið í ár og milli 2 og 3% eftir það.

Helsti drifkraftur einkaneyslu undanfarin ár hefur verið fólksfjölgun og kaupmáttaraukning. Búist er við að nokkuð dragi úr þeim vexti, en þó er bent á að sterk staða heimilanna geti staðið undir áframhaldandi vexti næstu árin.

Árið 2017 nam eigið fé heimilanna 157% af landsframleiðslu, að ótöldum lífeyrisréttindum, og hefur ekki verið hærra á þann mælikvarða í rúm 20 ár. Skuldir þeirra sem hlutfall landsframleiðslu hafa að sama skapi ekki verið lægri frá 2003, en þær héldust óbreyttar milli ára og eru nú um 75%, sem er vel undir meðaltali Norðurlandanna.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.