Íbúðalánasjóður segir í greinargerð að gagnrýni Samtaka atvinnulífsins um sjóðinn sé röng og einhliða mynd dregin upp afstöðu sjóðsins.

Í greinargerðinni segir: "Í grein í fréttabréfi Samtaka Atvinnulífsins(SA) er lýst m.a. áhyggjum yfir þeim áhrifum sem uppgreiðslur í húsbréfakerfinu geti haft á efnahag og eigið fé Íbúðalánasjóðs (ÍLS).

Að mati ÍLS er skýrsla SA og forsendur útreikninga mjög ónákvæmir og er þar dregin upp röng og einhliða mynd af stöðu sjóðsins. Þetta gerir SA upp á sitt einsdæmi og án þess að hafa samband við ÍLS að sannreyna forsendur útreikninganna. ÍLS hefur bent SA á ónákvæmni í forsendum sínum, en án árangurs.

Áhættu og-fjárstýring

Að því er varðar þá spurningu SA hvort að í lánum ÍLS til bankanna felist að verið sé að lána fé með ríkisábyrgð er því til að svara að svo er skýrlega ekki. ÍLS nýtur eigandaábyrgðar ríkisins á skuldbindingum sínum. Af því leiðir að ríkið ábyrgist í reynd endurgreiðslu skuldabréfa þeirra sem ÍLS gefur út til að fjármagna starfsemi sína. Þau skuldabréf eru því með ríkisábyrgð. Það fé fer einungis til útlána sjóðsins til einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga vegna byggingar eða kaupa á íbúðum. Ef sjóðurinn aflaði fjár með skuldabréfaútboði til endurlána til bankanna, væri um lán með ríkisábyrgð að ræða. Lánasamningar ÍLS við bankana fela hins vegar í sér ávöxtun uppgreiðslufjár. Það er fráleitt með öllu að greina ekki á milli fjármögnunarbréfa sjóðsins sem bera ríkisábyrgð og svo uppgreiðslufjár, sem er fyrirframendurgreiðsla lántakenda á lánum sem sjóðurinn hefur veitt. Í síðara tilvikinu hefur lántaki, sem fékk lán sem var fjármagnað með ríkisábyrgð, kosið að greiða lánið upp hraðar en upphaflega var áætlað. Sjóðurinn þarf að ávaxta það fé þar til kemur að gjalddaga þeirra skuldabréfa sem að baki láninu standa. Það er því ótvírætt að ávöxtun uppgreiðslufjár í áhættustýringarskyni felur ekki í sér lán með ríkisábyrgð til viðkomandi banka.

Samkvæmt lögunum ber ÍLS skylda til að ráðstafa fjármunum sínum á sem bestan hátt, m.t.t. öryggis, vaxta og meðallíftíma eign og skulda. Íbúðalán eru almennt talin meðal öruggustu skuldabréfa sem fyrir finnast. Að auki eru þau ákjósanleg fyrir ÍLS hvað lengd og meðallíftíma varðar.

Grundvallarástæða þess að sjóðurinn fór þá leið að semja við banka og sparisjóði var sú að engir aðrir sambærilegir ávöxtunarkostir voru fyrir hendi á þeim tíma, og bjóðast ekki enn, og engir aðrir kostir gerðu sjóðnum kleift að ná fram jafnvægi í líftíma eigna og skulda sjóðsins og fjárfesta í bréfum með ásættanlega áhættu.

Um einstök atriði í athugasemdum Samtaka Atvinnulífsins (SA)

Helstu forsendur útreikninga SA eru eftirfarandi:

i) Í útreikningum SA er gert ráð fyrir að meðaltalsvextir skulda ÍLS séu 4,50%

ii) SA reiknar ekki með að hægt sé að greiða upp, eða kalla inn, óhagstæðar skuldir ÍLS

iii) Í útreikningum SA er gert ráð fyrir að allar uppgreiðslur ÍLS séu endurfjárfestar á 3,55% ávöxtunarkröfu

Þegar litið er á útreikninga SA kemur m.a. í ljós rangar forsendur, ónákvæmni í útreikningum og skortur á heildarsýn. Nefnd skulu nokkur dæmi, sem þó eru engan vegin tæmandi:

Meðalvextir skulda ÍLS

Meðalvextir skulda ÍLS er 4,3% en ekki 4,50% eins og SA heldur fram. Einnig tekur SA ekki tillit til bókhaldslegra forsenda. Sem dæmi má nefna að stofnefnahagur ÍLS, þ.e. allar eignir og skuldir fyrir 1999 eru gerðar upp mv. 4,02% ávöxtunarkröfu. Af því leiðir að ÍLS hagnast beinlínis af uppgreiðslum á hluta af lánum úr eldra kerfinu. Ef öll lán sem veitt voru fyrir 1999 væru greidd upp og sjóðurinn greiddi upp þær skuldir sem hann getur kallað inn myndi sjóðurinn hagnast um nálega 1,5 milljarð kr. á þeim viðskipum.

ÍLS getur mætt uppgreiðslum með því að greiða upp óhagstæðar skuldir

Í útreikningum sínum tekur SA ekki tillit til þess að ÍLS getur greitt upp óhagstæðar skuldir á móti uppgreiðslunum. Í lok júní s.l. voru uppgreiðslur í húsbréfakerfinu um 120 milljarðar króna. Þessum uppgreiðslum var mætt með aukaútdrætti að upphæð rúmlega 41,4 milljarðar króna eða um 35% af heildaruppgreiðslum. Í lok júní voru útistandandi um 70 milljarðar í innkallanlegum húsbréfum. Meðalvextir innkallaðra húsbréfa voru um 4,75%.

Á sama tíma námu uppgreiðslur úr öðrum kerfum ÍLS, Byggingasjóði Ríkisins og Byggingasjóði Verkamanna, um 30 milljörðum króna. Þessum uppgreiðslum var mætt með uppgreiðslum óhagsstæðra lána að upphæð 15,8 milljarðar króna eða um 52% af heildaruppgreiðslum. Meðalvextir þessara uppgreiðsa voru um 5,5%.

ÍLS greiddi því upp óhagstæðar skuldir sem námu 57,2 milljörðum króna eða um 38,3% af heildaruppgreiðslum. Vegnir meðalvextir uppgreiðslanna eru 4,95% sem er um 1,4% hærri vextir en SA reiknar með í sínum útreikningum.

ÍLS getur endurfjárfest uppgreiðslum á hagstæðum kjörum

Eins og komið hefur fram hefur ÍLS emdurfjárfest hluta af uppgreiðslunum skv. heimildum sjóðsins í áhættu og-fjárstýringu. Ávöxtun þeirra fjármuna bera 4-5% raunvexti sem er um 0,45% til 1,55% hærri raunvexti en SA notar við sína útreikninga á stöðu sjóðsins.

Um 80 milljörðum hefur verið varið í lánasamninga við banka og sparisjóði með veði í íbúðabréfum. Gæði fjárfestinga slíkra samninga er mjög ásættanleg, m.t.t áhættu og líftíma. Lánasamningar ÍLS og banka og sparisjóða bera sambærilega áhættu og íbúðalán ÍLS. Íbúðalán eru almennt talin meðal öruggustu trygginga sem hægt er að fá. Það er því alrangt mat SA að ÍLS sé að auka áhættu sjóðsins með því að fjárfesta í slíkum lánasamningum.

Í þessu sambandi má geta þess að útlánatap ÍLS af almennum lánum sjóðsins frá 1999-2003 nemur að meðaltali um 0,05%. Á síðasta ári nam útlánatap ÍLS einungis 0,015%. Þessar tölur eru í takt við sambærilegar tölur frá Bandaríkjunum og frá Norðurlöndunum. Þær undirstrika gæði útlána með veði í íbúðarhúsnæði.

Annað sem SA tekur ekki tillit til í sínum útreikningum
SA tekur ekki tillit til þess að ÍLS stundar áfram útlánastarfsemi og hefur lánað út um 64 milljarða króna frá 1. júlí 2004 til 30. júní 2005. Ný útlán sjóðsins eru með 0,60% vaxtamun.

Ekki er tekið tillit til þess, í útreikningum SA, að sjóðurinn er rekinn með hagnaði. Á árinu 2004 var hagnaður af rekstri sjóðsins rúmlega 1,1 milljarður kr. Samkvæmt bráðabirgðauppjöri ÍLS, 31 mars 2005, er hagnaður sjóðsins fyrstu þrjá mánuði ársins nálægt 300 milljónum króna og bókfært eigið fé ÍLS er rúmir 13 milljarðar króna.

ÍLS hefur lagt um 3,4 milljarða kr. í afskriftareikning útlána til að mæta hugsanlegum útlánatöpum í framtíðinni. Ef uppgreiðslur hjá sjóðnum halda áfram í sama mæli og ekki koma til ný útlán í staðinn þarf sjóðurinn augljóslega ekki á þessum afskriftareikningi að halda og hann færi þá til hækkunar á eigin fé sjóðsins.

Í útreikningum SA virðist ekki að fullu hafa verið tekið tillit til skiptiálags í skuldabréfaskiptunum sem átti sér stað 1. júlí 2004.

Lokaorð

Sú mynd sem SA dregur upp af eiginfjárstöðu ÍLS er, að mati ÍLS, bæði óvönduð og villandi. Tekið skal fram að ÍLS hefur bent SA á mikla ónákvæmni í forsendum og útreikningum, en án árangurs.

SA notar rangar forsendur við útreiknina sína og virðist ekki kynna sér gögn um sjóðinn til hlýtar, m.a. ársreikninga, lög og reglugerðir. Sem dæmi má nefna notar SA rangar vaxtaforsendur bæði hvað varðar meðalútlánavexti ÍLS en einnig hvað varðar þá vexti sem ÍLS getur endurfjárfest uppgreiðslum í. Einnig ber að nefna að SA tekur ekki tillit til þess að ÍLS getur mætt hluta uppgreiðslna hjá sjóðnum með því að greiða upp óhagstæðar skuldir. Slíkur réttur er ennþá til staðar.

Ársreikningur ÍLS og bráðabirgðauppgjör sjóðsins sýna glögglega að eiginfjárstaða sjóðsins er góð. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi 2004 er eigið fé ÍLS um 12,7 milljarðar króna og samkvæmt bráðabirgðauppgjöri ÍLS þann 31. mars 2005 er eigið fé sjóðsins rúmir 13 milljarðar króna. Að framansögðu má vera ljóst að niðurstaða útreikninga SA, um að eigið fé ÍLS sé neikvætt um 2 milljarða króna, er fjarri lagi.

ÍLS telur ámælisvert að SA skuli senda frá sér svo óvandaðan málflutning. Að mati ÍLS eiga Samtök Atvinnulífsins að sýna vönduð vinnubrögð og vera hafin yfir allan vafa í sínum málflutningi eiga þau að geta talist trúverðug.