Áformum um framkvæmdir á landsvæði því á Spáni sem Róbert Wessmann, forstjóri Actavis Group, og Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novators, keyptu í maí 2005, hefur verið skotið á frest um a.m.k. ár vegna meðal annars slæms ástand á fasteignamarkaði þar í landi. Fyrir seinustu áramót freistuðu þeir þess að kaupa lúxussvæði við hliðina, en ekki náðust samningar um verð.

„UBS-fjárfestingarbankinn var ráðgjafandi aðili okkar vegna þeirra viðræðna. Þá þegar höfðu þeir illan bifur á spænska fasteignamarkaðinum og sögðu hann stefna í að verða „efnaúrgang, þ.e. stórhættulegan,“ segir Árni Harðarson, forstjóri Salt Investment, fjárfestingarfélags Róberts. „Þess vegna gáfum við ekkert eftir varðandi okkar verðhugmyndir, og það er ákaflega gott að við gerðum það ekki því verðið er mun lægra í dag. Við höfum þó ekki útilokað þau kaup ennþá.“

Byggingarleyfum frestað vegna spillingarmála

Svæði Róberts og Björgólfs Thors er í Murcia á suðaustur-hluta Spánar og er um tveir ferkílómetrar að stærð.  Þó að rúm þrjú ár séu liðin frá kaupunum liggur ekki fyrir byggingarleyfi á svæðinu. Árni segir að um ári eftir að Íslendingarnir keyptu landið hafi komið upp spillingarmál varðandi byggingarleyfisveitingar í Murcia og reyndust m.a. embættismenn hafa þegið mútur gegn því að veita leyfi. Meðan málið var rannsakað ákváðu yfirvöld að skjóta öðrum leyfisveitingum á frest, sem þýddi í raun að verkefni Íslendinganna var fryst um óákveðinn tíma og hefur verið svo undanfarin tvö ár. „Þetta er búið að vera mikil þrautarganga,“ segir Árni.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .