Tuttugu og sjö prósent flugfreyja og flugþjóna urðu fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni á síðasta ári. Um 47 prósent sögðust hafa orðið vitni að eða hafa heyrt um vinnufélaga sem varð fyrir kynferðislegri áreitni í flugi.

Könnunin var gerð af jafnréttisnefnd sem er staðsett í Hong Kong og send út til 9000 flugfreyja og flugþjóna í félaginu HKFAA (Hong Kong Flight Attendants Alliance) en starfsfólkið vinnur fyrir flugfélög á borð við Cathay Pacific Airways, Dragonair, British Airways og United Airlines. 86 prósent svarenda voru konur.

Í flestum tilvikum var þetta líkamleg áreitni, eins og klapp, kossar, klíp eða önnur snerting. Í einhverjum tilvikum var áreitnin andleg þar sem sagðir voru klámfengnir brandarar, beðið um kynlíf eða sýndar klámfengnar myndir.

Í könnuninni kom einnig í ljós að farþegar eru líklegastir til að áreita flugfreyjur eða flugþjóna, eða í 59 prósentum tilvika, en aðrir áhafnarmeðlimir í 41 prósenti tilvika.

Á síðasta ári var starf flugfreyju eða flugþjóns talið eitt það versta í ferðamannageiranum en það lenti í 191. sæti af 200 mögulegum. The Telegraph segir frá málinu hér.