Rúmlega 50% svarenda í könnun um afstöðu til dagsetningar alþingiskosninga sem MMR gerði vilja að kosið verði á næstu sex mánuðum. Um 31% svarenda töldu að efna eigi til kosninga í lok kjörtímabilsins.

Könnunin var framkvæmd dagana 5.-8. október og var heildarfjöldi svarenda 830 manns. Spurt var um afstöðu fólks til þess hvenær ætti að ganga næst til alþingiskosninga.

Rúmlega 40% vilja kosningar innan þriggja mánaða

40,9% þeirra sem svöruðu sögðu að kjösa ætti til Alþingis innan þriggja mánaða og 12,4 sögust vilja kosningar eftir 3-6 mánuði.

7,7% vilja kosningar eftir 6-12 mánuði og 8,6% sögðu að kjósa ætti eftir rúmlega ár, eða árið 2012.

Þá voru 30,7% sem vilja kosningar í lok núverandi kjörtímabils.

Færri en fyrir síðustu kosningar

MMR gerði sambærilegra könnun dagana 20.-21. janúar á síðasta ári, nokkrum dögum áður en tilkynnt var um kosningar. Þá vildu 61,1% svarenda alþingiskosningar innan 6 mánaða, samanborið við 53% nú.

Í þeirri könnun vildu 14,4% svarenda að kosið yrði í lok þáverandi kjörtímabils, samanborið við 30,7% núna.

Munur eftir stjórnmálaflokki

Áberandi munur var á afstöðu svarenda eftir því hvaða stjórnmálaflokk þeir myndu kjósa ef gengið væri til kosninga nú.

69,7% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og 56,2% kjósenda Hreyfingarinnar vilja kjósa innan þriggja mánaða samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. 88,3% kjósenda Vinstri grænna og 73,1% kjósenda Samfylkingarinnar vilja kjósa í lok kjörtímabils.

Rúmlega helmingur Framsóknarmanna, 52%, vill kosningar innan sex mánaða og tæplega helmingur vill kosningar eftir sex mánuði eða lengur. Rúmlega fjórðungur kjósenda Framsóknar vilja kjósa í lok kjörtímabils.

Síðast þegar spurt var sögðu fáir aðrir en stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks að kjósa ætti í lok kjörtímabils.