Meira en helmingur breskra fyrirtækja hyggst annað hvort frysta eða lækka laun starfsmanna sinna á komandi ári.

Þetta kemur fram í könnun breska viðskiptaráðsins en samkvæmt henni hyggjast 49% fyrirtækja frysta laun starfsmanna á meðan 6% fyrirtækja hyggst lækka laun starfsmanna sinna.

Aftur á móti hyggjast 45% fyrirtækja hækka laun starfsmanna sinna á næsta ári.

Talsmaður breska viðskiptaráðsins, Adam Marshall, segir í samtali við BBC að könnunin sýni fram á raunhæfar úrlausnir stjórnenda fyrirtæja í erfiðu umhverfi en könnunin náði til um 450 fyrirtækja. Þannig verði ekki hjá því komist að endurskoða launakostnað og í raun komi það á óvart að tæplega helmingur stjórnenda hyggst hækka laun starfsmanna. Ekki kemur fram í könnuninni hversu háar þær launhækkanir kunna að verða.