Guðrún Lárusdóttir og Ágúst Sigurðsson
Guðrún Lárusdóttir og Ágúst Sigurðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Útgerðin Stálskip í Hafnarfirði hefur selt togarann Þór HF til Rússlands og veiðiheimildir í íslenskri lögsögu til Síldarvinnslunnar og Gjögurs. Úthafsheimildir voru seldar til Útgerðarfélags Akureyringa.

Stálskip var stofnað 1970 af hjónunum Guðrúnu Lárusdóttur og Ágústi Sigurðssyni. Þau ætla nú að breyta hlutverki útgerðarinnar og ætla að auk þess að sinna rekstri þeirra eigna sem fyrirtækið á, að fjárfesta í auknum mæli í fasteignum og beina sjónum sínum að fjárfestingum í rekstri innanlands.

Fram kemur í tilkynningu að þau Guðrún og Ágúst eru bæði komin á níræðisaldur.

Skrifstofa Stálskips mun eftir sem áður verða starfrækt í Hafnarfirði og munu stöðugildi verða fjögur. Stjórn Stálskips verður óbreytt og Guðrún mun áfram starfa sem framkvæmdastjóri, að því er segir í tilkynningu félagsins.

Í maí í fyrra sagði VB.is frá því að stjórnendur Stálskips hafi sagt upp allri áhöfn Þórs. Guðrún vildi hins vegar hvorki segja af né á hvort til standi að selja togarann.