Rússnesk stjórnvöld ætla ekki að stökkva til að bjarga fólki eða fyrirtækjum sem munu tapa peningum sem geymdir eru í tveimur stærstu bönkum Kýpur. Þetta kom fram í viðtali við varaforsætisráðherra Rússlands, Igor Shuvalov, á rússneskri sjónvarpsstöð. Stjórnvöld hafi ekki ráðgert að bregðast við þessu á nokkurn hátt. Komið hefur fram að Rússar eigi háar fjárhæðir á Kýpur.

Kýpur óskaði eftir því að rússnesk stjórnvöld veittu þeim fjárhagsaðstoð til viðbótar við það sem fæst frá Evrópusambandinu. Að því verður ekki, en Rússar höfðu gagnrýnt áætlanir um að skattleggja innstæður til að bjarga bankakerfinu.