Rússar hafa stöðvað alla gasflutninga til Úkraínu en samningaviðræður hafa staðið yfir milli ríkjanna undanfarnar vikur þar sem Rússar segja Úkraínumenn skulda sér töluverðar upphæðir fyrir notkun á gasi.

Þessu hafa Úkraínumenn neitað og segjast hafa staðið í skilum allt síðasta ár.

Klukkan 7 í morgun létu rússnesk stjórnvöld hins vegar Gazprom, sem er fyrirtæki í eigu rússneska ríkisins, skrúfa fyrir gasflutninga til landsins.

Þá hafa deiluaðilar enn ekki samið um verð fyrir árið 2009.

Það sem flækir málið verulega er að mikill hluti gasleiðslna sem liggur í gegnum Úkraínu flytur einnig gas til V-Evrópu og hefur Evrópusambandið lýst yfir miklum áhyggjum vegna deilna ríkjanna. Rússar hafa þó lýst því yfir að lokun gasflutninga til Úkraínu muni engin áhrif hafa á flutninga til V-Evrópu.