Rússneska olíufyrirtækið Rosneft og norska ríkisolíufélagið Statoil hafa undirritað samstarfssamning um olíuleit á N-Íshafi á Norðurskautinu, nánar til tekið á Barentshafi. Með samkomulaginu eignast Statoil þriðijung í sameiginlegu fyrirtæki sem mun leita að olíu á svæðinu. Auk þess fær Statoil hlut í leitarsvæðum á Okhotsk svæðinu norðaustan af Rússlandi.

Mjög algengt er að mörg olíufélög sameinist um ákveðin leitarsvæði og stofni þannig sérstök félög til að fjármagna leit á olíu. Þetta er nú þriðji samningurinn sem Rosneft gerir um olíuleit á svæðinu sl. mánuð en félagið hefur þegar undirritað samstarfssamninga við ítalska olíuleitarfyrirtækið Eni og bandaríska olíufyrirtækið Exxon.

Verðmæti samningsins á milli Rosneft og Statoil er ekki gefið upp en breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir heimildarmanni sínum að hann sé um 2,5 milljarða Bandaríkjadala virði. Þá hefur BBC eftir talsmanni Statoil að fjárfesting félagsins í leitarverkefnum með Rosneft séu mikils virði því fyrri rannsóknir á svæðinu gefi tilefni til að ætla að olíu sé að finna á umræddum svæðum.

Þá vakti það sérstaka athygli að Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands og verðandi forseti, skyldi vera viðstaddur undirritunina. Af því tilefni sagðist hann meta samband Rússa og Norðmanna mikils og bætti því við að það færi ekkert á milli mála að Rosneft hefði fullan stuðning rússneskra yfirvalda.