Olíuverð hefur hækkað um 2,6% það sem af er morgni og er fatið af Brent Norðursjávarolíu komið í 34,77 dali, samkvæmt upplýsingum Bloomberg. Í gær hækkaði olía verulega og um tíma var fatið í 36 dölum.

Í frétt Financial Times segir að hækkanirnar í gær megi rekja til frétta af ummælum rússneska olíumálaráðherrans, Alexanders Novak, sem sagðist vera tilbúinn að hitta fulltrúa OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, til að ræða niðurskurð í olíuframleiðslu.

OPEC ríkin munu funda í næsta mánuði og verður ekki tekin ákvörðun um niðurskurð fyrr en á þeim fundi. OPEC ríki eins og Venesúela og Nígería, sem eiga í hvað mestum fjárhagslegum vandræðum, hafa lagt hart að félögum sínum að gripið verði til niðurskurðar og urðu þær kröfur háværari eftir að olíufatið fór niður í 27 dali í síðustu viku.

Ekkert verður hins vegar af slíkum niðurskurði án stuðnings Sádí-Arabíu, em hefur áður lýst efasemdum um raunverulegan vilja og getu Rússa til að draga úr olíuframleiðslu.