*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 2. nóvember 2019 12:31

Rússnesk-íslenska viðskiptaráðið sett á fót

Stofnfundur Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins fór fram í gær. Ætlað að efla viðskipti við Rússland.

Ritstjórn
Frá stofnfundi Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins.
Aðsend mynd

Stofnfundur Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins fór fram í gær og tók ráðið formlega til starfa sama dag. Stofnfélagar eru rúmlega fjörutíu fyrirtæki sem starfa m.a. innan sjávarútvegs og sjávarútvegstækni, matvælaframleiðslu, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins.

„Það er ánægjulegt að fyrirtækin taki höndum saman til að efla viðskiptin við Rússland sem eiga sér langa sögu. Fjölmörg sóknarfæri eru í Rússlandi fyrir íslensk fyrirtæki eins og við höfum séð á undanförnum mánuðum," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, en hann hélt erindi á fundinum. Hann sagði mikilvægt að viðhalda góðum tengslum milli ríkjanna þrátt fyrir áframhaldandi viðskiptabann rússneskra yfirvalda gagnvart íslenskum útflytjendum. Þær aðgerðir séu í engu samræmi við aðgerðir vestrænna ríkja í kjölfar ólöglegrar framgöngu Rússa í Úkraínu.

„Undirbúningshópur skipaður þeim Berglindi Ásgeirsdóttur, sendiherra Íslands í Rússlandi, Ara Edwald, Gunnþóri Ingvasyni og Tanyu Zharov hefur starfað að stofnun ráðsins frá áramótum auk Sigrúnar Lilju Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra allra alþjóðlegu viðskiptaráðanna sem eru hýst hjá Viðskiptaráði Íslands.

Í lok mánaðarins mun utanríkisráðherra leiða viðskiptasendinefnd til Moskvu í tengslum við opinbera heimsókn hans þangað. Áherslan þar verður bæði á að rækta viðskiptasambönd og líta til nýrra tækifæra í viðskiptum við Rússland," segir í tilkynningu Stjórnarráðs.

Stikkorð: Rússland Ísland viðskiptaráð